Breytingar hjá TMF
15.10.2025
Þann 1. október urðu starfsmannaskipti hjá TMF Tölvumiðstöð. Sigrún Jóhannsdóttir, fráfarandi framkvæmdastjóri, hefur nú hætt störfum og er farin að sinna öðrum hugðarefnum. Sigrún hefur stýrt Tölvumiðstöðinni í rúm 30 ár og hefur svo sannarlega unnið ötullega að fræðslu og ráðgjöf á sviði tölvu- og tæknimála fyrir fólk með fötlun, kennara og aðstandendur. Kunnum við henni miklar þakkir fyrir frábært starf í gegnum tíðina og óskum henni velfarnaðar í öllu því sem hún tekur sér fyrir hendur í framtíðinni.
Nýr starfsmaður Tölvumiðstöðvar er Þórunn Hanna Halldórsdóttir talmeinafræðingur. Þórunn Hanna hefur víðtæka reynslu sem talmeinafræðingur, auk þess sem hún kennir um óhefðbundnar tjáskiptaleiðir við Námsleið í talmeinafræði við HÍ. Þá hefur áhugi hennar lengi tengst tæknilausnum sem auðvelda aðgengi að lestri, ritun og tölvunotkun. Starfsemi TMF Tölvumiðstöð heldur áfram á sömu braut þar sem veitt verður ráðgjöf, fræðsla og námskeið á sviði tölvu og tæknilausna fyrir fólk með fötlun.